Velkomin á vefsíðu
Hollvinasamtaka SAK
Við styðjum og styrkjum starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri
Fréttir

Hollvinir færðu á dögunum legudeild geðdeildar rausnarlegar gjafir í formi húsgagna. Þegar höfðu borist stólar og borð inn í viðtalsherbergin, stofuborð í dagstofu, tveir lazyboystólar í öryggisenda deildarinnar og í gær kom svo einnig stórt sjónvarp fyrir öryggisstofuna. Undanfarið hafa umfangsmiklar breytingar verið gerðar á legudeildinni með það að markmiði að bæta aðstöðu bæði sjúklinga og starfsfólks. Með tilkomu húsgagnanna frá Hollvinum má segja að umbæturnar hafi náð enn lengra. MYND FV.: Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar stoðþjónustu, Inga Margrét Árnadóttir, meðstjórnandi Hollvina, Jóhann Rúnar Sigurðsson, varaformaður Hollvina, Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, Hermann Haraldsson, gjaldkeri Hollvina, Bjarni Jónasson, meðstjórnandi Hollvina, Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina, Bernard Hendrik Gerritsma, deildarstjóri geðdeildar og Valborg Lúðvíksdóttir, aðstoðardeildarstjóri geðdeildar. Myndina tók Skapti Hallgrímsson.

Mikil stemming ríkti á Glerártorgi á laugardaginn þegar Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri héldu sinn árlega Dag sjúkrahússins. Fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn þar sem boðið var upp á heilsufarsmælingar og félagar í stjórn Hollvina skráðu nýja meðlimi í samtökin. Einn vinsælasti viðkomustaðurinn var dúkku- og bangsaspítalinn þar sem börn fengu að koma með dúkkur og bangsa í skoðun. Í nokkrum tilfellum þurfti að sauma bangsa eftir nákvæma skoðun. Aðrir fengu plástra eða umbúðir fyrir tuskudýrin sín. „Það er varla hægt að hugsa sér jól án þess að við Hollvinir stöndum vaktina á Glerártorgi,“ sagði Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina. „Á þessu ári höfum við náð að gera mikið gagn fyrir sjúkrahúsið með framlögum okkar. Meðal annars höfum við gefið hitakassa, þvottavélar fyrir speglunardeild, öndunarmælingatæki og tvær glænýjar speglunarstæður.“ Hann bætti við að á næsta ári muni samtökin ekki slá slöku við og halda ótrauð áfram söfnun fyrir tækjum og búnaði. Á nýrri heimasíðu samtakanna er hægt að skrá sig sem félaga eða styrkja samtökin með peningagjöf - sjá hér. Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga SAk stóð einnig vaktina með stjórn Hollvina: „Hollvinir eru okkur ómetanlegir. Þeir styðja við starfsemi sjúkrahússins á svo margan hátt og hjálpa okkur að bæta þjónustu við sjúklinga.“ Dagur sjúkrahússins tókst afar vel og var góð þátttaka til marks um sterka tengingu samfélagsins við sjúkrahúsið og Hollvini. Fleiri myndir má sjá á Facebook-síðu Hollvina hér.
Hafðu samband
Viltu vita meira? Ekki hika við að hafa samband.