Fréttir

Eftir Hilda Jana Gísladóttir 8. desember 2025
Við þökkum þeim fjölmörgu sem mættu á Dag sjúkrahússins á Glerártorgi um helgina, þá ekki síst þeim sem skráðu sig sem Hollvini. Við hvetjum öll sem geta til þess að gerast hollvinir, en árgjaldið er 6.000 kr. Hér er hægt að skrá sig: https://www.hollvinir.is/services
Eftir Hilda Jana Gísladóttir 26. nóvember 2025
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) ásamt starfsfólki sjúkrahússins standa fyrir hátíð á Glerártorgi laugardaginn 6. desember kl. 13-15. Starfsfólk Sak býður upp á mælingu á blóðþrýstingi, súrefnismettun og púlsi. Félagsmenn í Hollvinasamtökunum kynna starfsemi sína og skrá nýja félaga. Smáfólkinu býðst að koma með bangsa eða dúkkur í læknisskoðun. Mætum og gerumst Hollvinir!
Eftir Hilda Jana Gísladóttir 24. nóvember 2025
Eftir Hilda Jana Gísladóttir 12. nóvember 2025
Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri hafa fært dag- og göngudeild skurðlækna nýja gipssög. Sögin sem var fyrir var komin vel til ára sinna og var bæði hávær og óþjál í notkun. Gipssagir eru sérhannaðar til að saga eingöngu gifs án þess að særa húð. Nýja sögin er mun léttari, hljóðlátari og þjálari í notkun en sú gamla og léttir því störf hjúkrunarfræðinga á deildinni og gerir vonandi upplifun þjónustuþega deildarinnar af gipstöku betri. Við erum Hollvinum ákaflega þakklát fyrir að hafa veitt okkur þessa rausnarlegu gjöf.“ segja Þórgunnur Birgisdóttir, deildarstjóri dag- og göngudeildar skurðlækninga, og Eydís Unnur Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur á dag- og göngudeild skurðlækninga. Hvetjum fólk til að gerast hollvinir „Það er alltaf jafn gleðilegt að geta fært deildum sjúkrahússins tækjabúnað sem bætir þjónustu við sjúklinga og starfsaðstæður starfsfólks“ segir Jóhannes Bjarnason, formaður Hollvina og bætir við „Við þurfum á því að halda að starfsemi Hollvina eflist og að Hollvinir greiði þá greiðsluseðla sem berast í heimabanka, enda er það þannig sem við getum haldið áfram að veita gjafir sem þessar.“ Framlag Hollvina skiptir SAk sköpum Það er áhugavert að hafa það í huga að á síðasta ári afhentu Hollvinir Sjúkrahúsinu á Akureyri gjafir að verðmæti 62 m.kr. en fjárfestingaheimild SAk á fjárlögum á því ári var 200,6 m.kr. Gjafir Hollvina námu því um 31% af framlagi ríkisins til fjárfestinga árið 2024. „Framlag Hollvina skiptir SAk einfaldlega sköpum, sem og framlag annarra aðila í samfélaginu til sjúkrahússins. Það er hreinlega óhugsandi að sjá fyrir sér stöðu tækjabúnaðar á sjúkrahúsinu ef ekki kæmi til gjafa frá utanaðkomandi aðilum.“ segir Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar stoðþjónustu. Smellið hér til að gerast Hollvinur
Eftir Hilda Jana Gísladóttir 19. september 2025
Eftir Jóhann Rúnar Sigurðsson 11. júlí 2025
Eftir Katrín Árnadóttir 27. janúar 2025
Hollvinir færðu á dögunum legudeild geðdeildar rausnarlegar gjafir í formi húsgagna. Þegar höfðu borist stólar og borð inn í viðtalsherbergin, stofuborð í dagstofu, tveir lazyboystólar í öryggisenda deildarinnar og í gær kom svo einnig stórt sjónvarp fyrir öryggisstofuna. Undanfarið hafa umfangsmiklar breytingar verið gerðar á legudeildinni með það að markmiði að bæta aðstöðu bæði sjúklinga og starfsfólks. Með tilkomu húsgagnanna frá Hollvinum má segja að umbæturnar hafi náð enn lengra. MYND FV.: Konráð Gylfason, framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar stoðþjónustu, Inga Margrét Árnadóttir, meðstjórnandi Hollvina, Jóhann Rúnar Sigurðsson, varaformaður Hollvina, Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, Hermann Haraldsson, gjaldkeri Hollvina, Bjarni Jónasson, meðstjórnandi Hollvina, Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina, Bernard Hendrik Gerritsma, deildarstjóri geðdeildar og Valborg Lúðvíksdóttir, aðstoðardeildarstjóri geðdeildar. Myndina tók Skapti Hallgrímsson.
Bangsar fengu aðhlynningu
Eftir Katrín Árnadóttir 16. desember 2024
Mikil stemming ríkti á Glerártorgi á laugardaginn þegar Hollvinir Sjúkrahússins á Akureyri héldu sinn árlega Dag sjúkrahússins. Fjöldi fólks lagði leið sína á viðburðinn þar sem boðið var upp á heilsufarsmælingar og félagar í stjórn Hollvina skráðu nýja meðlimi í samtökin. Einn vinsælasti viðkomustaðurinn var dúkku- og bangsaspítalinn þar sem börn fengu að koma með dúkkur og bangsa í skoðun. Í nokkrum tilfellum þurfti að sauma bangsa eftir nákvæma skoðun. Aðrir fengu plástra eða umbúðir fyrir tuskudýrin sín. „Það er varla hægt að hugsa sér jól án þess að við Hollvinir stöndum vaktina á Glerártorgi,“ sagði Jóhannes G. Bjarnason, formaður Hollvina. „Á þessu ári höfum við náð að gera mikið gagn fyrir sjúkrahúsið með framlögum okkar. Meðal annars höfum við gefið hitakassa, þvottavélar fyrir speglunardeild, öndunarmælingatæki og tvær glænýjar speglunarstæður.“ Hann bætti við að á næsta ári muni samtökin ekki slá slöku við og halda ótrauð áfram söfnun fyrir tækjum og búnaði. Á nýrri heimasíðu samtakanna er hægt að skrá sig sem félaga eða styrkja samtökin með peningagjöf - sjá hér. Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga SAk stóð einnig vaktina með stjórn Hollvina: „Hollvinir eru okkur ómetanlegir. Þeir styðja við starfsemi sjúkrahússins á svo margan hátt og hjálpa okkur að bæta þjónustu við sjúklinga.“ Dagur sjúkrahússins tókst afar vel og var góð þátttaka til marks um sterka tengingu samfélagsins við sjúkrahúsið og Hollvini. Fleiri myndir má sjá á Facebook-síðu Hollvina hér.
Eftir Katrín Árnadóttir 16. desember 2024
Barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hefur fengið nýjan og fullkominn hitakassa af gerðinni Babyleo frá Dräger. Kassinn leysir af hólmi eldri gerð sem komin var til ára sinna og ekki lengur hægt að fá varahluti í. Nýi hitakassinn er bæði notendavænn og auðveldur í umgengni og mun nýtast afar vel á hágæslu nýbura á barnadeildinni. Á deildina leggjast inn veikir nýburar og fyrirburar sem fæddir eru eftir 34 vikna meðgöngu og eru hitakassar lykilbúnaður í meðferð þeirra. Á ári hverju leggjast um 40-60 börn inn á hágæslu nýbura og þurfa þau nánast alltaf að fá fyrstu meðferð í hitakassa. Oftast er um að ræða innlögn strax eftir fæðingu eða á fyrstu dögum eftir hana. Gjafmildi Hollvina hefur því tryggt barnadeildinni þennan nýja og mikilvæga búnað sem mun bæta aðbúnað nýburanna og stuðla að betri umönnun þeirra. „Það er ekki amalegt að fá slíkar gjafir frá Hollvinum og við erum mjög þakklát,“ segir Aðalheiður Guðmundsdóttir, deildarstjóri barnadeildar.
Eftir Bjarni Jónasson 10. desember 2024
Dagur sjúkrahússins fer fram á Glerártorgi á laugardag 14. desember milli kl. 14 og 16. Starfsfólk SAk býður upp á mælingu á blóðþrýstingi, súrefnismettun og púlsi. Félagsmenn í hollvinasamtökunum kynna samtökin og skrá nýja félaga. Þar að auki verður bangsa- og dúkkuskoðun í boði þar sem börnum býðst að koma með uppáhaldsleikfangið sitt í læknisskoðun. Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Sjá meira